Hvernig við hjálpum þér að halda tölvunni þinni og tækinu þínu hreinu

Sumir tölvuþrjótar falast eftir upplýsingunum þínum, t.d. bankareikningi, tölvupósti eða aðgangsorðum, og aðrir kunna að sækjast eftir því að ná stjórn á tækinu þínu – tölvunni, spjaldtölvu eða símanum.

Glæpamenn geta þá notað tækið til að finna önnur tæki sem þeir geta stjórnað. Þeir nota oft kynstrin öll af tölvum til að gera árásir á vefsvæði í þeim tilgangi að lama þau eða komast inn fyrir öryggisvarnir.

Ein af helstu aðferðum tölvuþrjóta til að yfirtaka tölvuna þína er að setja upp skaðlegan hugbúnað eða spilliforrit. Þú getur gripið til aðgerða til að verja tölvuna þína en Google leggur einnig áherslu á að verja þig og hefur þess vegna í sinni þjónustu hundruð öryggissérfræðinga sem leggja sitt af mörkum allan sólarhringinn til að tryggja öryggi gagnanna þinna og tækja.

Aðstoð við að forðast spilliforrit

Á sama hátt og Google leitar á vefnum að síðum með bestu svörin við spurningunum þínum leitum við einnig að síðum sem virðast skaðlegar notendum eða innihalda spilliforrit. Á hverjum degi greinum við og merkjum fleiri en 10.000 af slíkum óöruggum vefsvæðum og við birtum viðvaranir við allt að 14 milljónir Google leitarniðurstaðna og 300.000 skrár til niðurhals. Með því tilkynnum við notendum að eitthvað grunsamlegt sé á ferðinni varðandi viðkomandi vefsvæði eða tengil.

Við notum sömu tækni til að greina ef einhver er að senda þér skeyti í Gmail sem gæti verið skaðlegt eða innihaldið spilliforrit og til að vara þig við ef þú reynir að sækja eitthvað af vefsíðu sem kann að virðast vera hringitónn eða PDF-skjal en inniheldur á laun kóða sem gæti skaðað tölvuna þína.

Jafnvel þótt þó heimsækir síðu sem inniheldur spilliforrit hafa verkfræðingar Google byggt frekari varnir inn í Chrome vafrann sem hjálpa til við að koma í veg fyrir að spilliforrit verði sett upp á tölvunni þinni og draga úr þeim áhrifum sem slík forrit hafa á tölvuna.

Aðstoð við að vera með allt á hreinu

Ein aðferð sem glæpamennirnir nota stundum til að fá aðgang að tölvunni þinni er að leita að þekktum öryggisvandamálum í gömlum útgáfum af hugbúnaði sem tækið þitt keyrir. Þeir vita að margir uppfæra ekki alltaf í nýjustu útgáfu af uppsettum hugbúnaði og forritum, en nýjustu útgáfur innihalda bestu öryggisvarnirnar. Google veit þetta líka, sem er ástæða þess að við þróuðum Chrome vafrann á þann hátt að hann er uppfærður í nýjustu útgáfu í hvert sinn sem þú ræsir hann. Þannig færðu nýjustu öryggisvarnirnar án nokkurrar fyrirhafnar.

Chrome þarf stundum að vinna með öðrum hugbúnaði, svokölluðum viðbótum, til að gera hluti á borð við að birta myndir eða myndskeið á réttan hátt. Þessar viðbætur kunna einnig að opna glæpamönnum leið til þess að ná stjórn á tölvunni þinni. Ef Chrome verður vart við úrelta viðbót sem inniheldur öryggisvandamál útilokar vafrinn þá viðbót þar til þú hefur sett upp nýjustu og öruggustu útgáfu hennar og birtir skilaboð til að láta þig vita að viðbótin þarfnist uppfærslu.

Aðstoð við að tryggja öryggi fartækja

Snjallsímar sem keyra Android stýrikerfið búa yfir sams konar vörnum til að draga úr hættu á skaðlegum áhrifum.

Android krefst þess einnig að hvert einasta forrit í Google Play versluninni gefi upp hvaða upplýsingum forritið vill safna af tækinu þínu eða fá aðgang að. Þannig getur þú tekið upplýsta ákvörðun um hvort þú treystir forritinu eða ekki. Við framkvæmum einnig sjálfvirka leit á Google Play til að útiloka og fjarlægja skaðleg forrit. Á sumum Android símum leitar forritastaðfesting Google að forritum sem hugsanlega gætu verið skaðleg, sama hvaðan þú setur þau upp. Þessi ókeypis þjónusta veitir þér þannig aukið öryggi ef þú setur upp forrit af óþekktum uppruna, t.d. af vefnum eða úr forritaverslun þriðja aðila.