Hvernig hjálpum við þér að verjast auðkennisstuldi

Google notar margs konar tækni til að vernda þig gegn auðkennisstuldi á netinu og tryggja að Google reikningurinn þinn sé ávallt öruggur.

Tvíþætt staðfesting

Við bjóðum notendum okkar upp á tvíþætta staðfestingu til að auka öryggi Google reikningsins þíns. Þetta verkfæri veitir aukið öryggi með því að krefjast ekki eingöngu aðgangsorðs heldur einnig staðfestingarkóða til að skrá þig inn á Google reikninginn. Jafnvel þótt einhver brjóti upp aðgangsorðið, giski á það eða hnupli því á annan hátt getur sá hinn sami ekki skráð sig inn á reikninginn þinn án þess að slá inn staðfestingarkóða sem við sendum í farsímann þinn. Við bjóðum tvíþætta staðfestingu á yfir 50 tungumálum og í 175 löndum. Fáðu frekari upplýsingar um hvernig þú getur sett upp tvíþætta staðfestingu.

Dulritun

Google er með ýmis úrræði til að viðhalda öryggi persónuupplýsinganna þinna gagnvart árásum og snuðri. Að sjálfgefnu dulkóðum við tengingu Gmail á milli þín og Google. Þetta hjálpar til við að vernda þig gegn hnýsni annarra þegar þú notar Google. Þessi vernd, sem kölluð er SSL-dulkóðun yfir alla lotuna, er einnig sjálfgefið virk þegar þú ert skráð(ur) inn á Google Drive og margar aðrar þjónustur.

Viðvaranir vegna grunsamlegrar reikningsvirkni

Við höfum látið fjölda notenda vita af því að eitthvað grunsamlegt hafi virst vera á seyði á Google reikningi viðkomandi – til dæmis af innskráningum sem virðast koma frá einu landi stuttu eftir að innskráning á sér stað í öðru landi. Þessir notendur fengu viðvörunarskilaboð innan Gmail pósthólfsins síns varðandi þessa óvenjulegu virkni. Einnig förum við stundum fram á að notendur breyti aðgangsorði sínu ef við höfum ástæðu til að telja að brotist hafi verið inn á reikning viðkomandi.

Sannvottun tölvupósts

Til að takmarka misnotkun og ruslpóst í pósthólfinu notar Gmail sannvottun á tölvupósti til að ákvarða hvort skilaboð koma í raun frá netfanginu sem þau virðast vera send úr. Allir virkir notendur Gmail – og fólk í samskiptum við þá – öðlast sjálfkrafa vernd gegn því að persónulegum og fjárhagslegum upplýsingum þeirra sé stefnt í hættu.

Ruslpóstvörn

Gmail ver þig gegn ruslpósti og skaðlegum tölvupósti. Gmail vinnur úr milljörðum skeyta á hverjum degi og hefur náð framúrskarandi árangri í að vernda notendur gegn ruslpósti – minna en 1% af öllum ruslpósti í Gmail endar í pósthólfinu. Þegar ný gerð af ruslpósti er send greinir kerfið hann oft innan nokkurra mínútna og útilokar notandann frá Google. Þetta minnkar líkurnar á að ruslpóstur geti skaðað tölvuna þína eða að persónuupplýsingum þínum verði stolið.