Tækni og meginreglur

Við hjá Google eltumst við hugmyndir og vörur sem reyna oft á þolmörk fyrirliggjandi tækni. Fyrirtækið sinnir sínum málum á ábyrgan hátt og þar er markvisst unnið að því að gæta jafnvægis á milli nýsköpunar og viðeigandi persónuverndar- og öryggisstigs gagnvart notendum okkar. Meginreglur persónuverndar okkar eru leiðarvísir okkar við ákvarðanatöku á öllum stigum fyrirtækisins og gera okkur kleift að verja og efla notendur okkar án þess að það komi niður á því takmarki okkar að koma skipulagi á upplýsingar heimsins.

Meginreglur persónuverndar

 1. Notum upplýsingar til að veita notendum okkar gagnlegar vörur og þjónustu.

  „Markmiðið er að veita notendum bestu upplifunina“ er fyrsta kjörorðið í grundvallarreglum Google. Þegar notendur deila upplýsingum með okkur gerir það okkur kleift að þróa þjónustu og vörur sem hafa meira gildi fyrir þá. Það er trú okkar að áhersla okkar á notendur sé grunnurinn að þjónustu okkar og þeim persónuverndareiginleikum sem hafa knúið nýsköpun og laðað að tryggan hóp netnotenda.

  Við lærum af innsláttar- og stafsetningarvillum sem við gerum öll við leit, sem aftur býður þér upp á fljótari og nákvæmari leitarniðurstöður. Þannig getum við giskað á að leit þín að [appelsínuafi] merki líklega að þú sért að leita að [appelsínusafi].

 2. Þróum vörur sem endurspegla öfluga persónuverndarstaðla og -starfsvenjur.

  Við leggjum metnað okkar í að vera leiðandi í tækniframförum, þ.m.t. þróun verkfæra sem gera notendum kleift að vinna með persónuupplýsingar sínar á einfaldan og aðgengilegan máta án þess að það komi niður á upplifun þeirra. Við vinnum samkvæmt persónuverndarlögum, auk þess að vinna, bæði innan fyrirtækis sem og með eftirlitsaðilum og öðrum fyrirtækjum innan okkar geira, að þróun og innleiðingu öflugra persónuverndarstaðla.

  Við hönnuðum Google+ með hringjum til að auðvelda notendum að deila mismunandi hlutum með mismunandi fólki. Þannig geturðu haft vini þína í einum hring, fjölskylduna í öðrum og yfirmanninn í sínum eigin eins manns hring – alveg eins og í raunveruleikanum.

 3. Gerum söfnun persónuupplýsinga gagnsæja.

  Við leggjum okkur fram um að birta notendum þær upplýsingar sem við notum til að sníða þjónustu okkar. Markmið okkar er að viðhalda gagnsæi, að því marki sem það á við, varðandi þær upplýsingar sem við höfum um einstaka notendur og hvernig við nýtum viðkomandi upplýsingar í þjónustu okkar.

  Stjórnborð Google veitir svör við spurningunni „Hvað veit Google um mig?“ Þar er hægt að sjá hvaða upplýsingar eru vistaðar á Google reikningnum þínum, t.d. síðasta bloggfærslan á Blogger eða innhlaðnar myndir, og þar geturðu breytt persónuverndarstillingum þínum fyrir ýmsar vörur frá Google á einum stað.

 4. Bjóðum notendum okkar upp á marktæka valkosti til persónuverndar.

  Fólk hefur mismunandi áherslur og þarfir varðandi persónuvernd. Til að uppfylla þarfir sem flestra notenda leggur Google sig í líma við að bjóða þeim upp á marktæka og sértæka valkosti um hvernig persónuupplýsingar þeirra eru notaðar. Við teljum að persónuupplýsingar eigi ekki að læsa inni og við leggjum okkur fram um að þróa vörur sem gera notendum kleift að flytja persónuupplýsingar sínar í aðra þjónustu. Við seljum ekki persónuupplýsingar notenda.

  Persónuverndarverkfærin okkar gera þér kleift að dulkóða leitargögn sem send eru á milli tölvunnar þinnar og Google, vafra um internetið í friði, eyða leitarferli, færa gögn úr þjónustu frá Google á einfaldan máta með áætlun okkar um gagnafrelsun og margt fleira.

 5. Sinnum upplýsingum heimsins á ábyrgan hátt.

  Við gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar við að verja þau gögn sem notendur setja í vörslu okkar. Við tökum vandamál tengd öryggi alvarlega og í samvinnu við samfélag notenda, hönnuða og öryggissérfræðinga vinnum við að því að auka öryggi á internetinu.

  Við hönnum öryggi og gallaþol í vörur okkar frá byrjun. Daglega nota sjálfvirkir skannar gögn til að verja milljónir notenda fyrir spilliforritum, vefveiðum, svikum og ruslpósti.