Hvernig við verndum þig gegn sviksamlegri starfsemi

Á netinu finnast svikahrappar og svindlarar, rétt eins og í raunheimum. Google gerir ýmislegt til að forða þér frá því að verða fórnarlamb svika.

Bönn við slæmum auglýsingum (og slæmum auglýsendum)

Við höfum sett mjög skýrar reglur um hver getur birt auglýsingar í gegnum verkfæri Google. Við höfðum öryggi og traust notenda í huga þegar við skrifuðum auglýsingareglur okkar. Við leyfum til dæmis ekki auglýsingar fyrir skaðlegt niðurhal, falsaðar vörur eða auglýsingar með óskýrum greiðslureglum. Og ef við uppgötvum svik í auglýsingu bönnum við ekki bara auglýsinguna – við bönnum auglýsandanum að eiga í frekara samstarfi við Google fyrir fullt og allt.

Skýrar línur um kostnað

Ein af leiðunum sem glæpamenn nota til að hagnast er að nota tölvu eða síma einhvers annars til að gera eitthvað sem kostar þann eiganda fé, svo glæpamaðurinn hagnast. Eitt bragð er til dæmis að útbúa forrit sem lætur síma einhvers senda SMS-skilaboð eða hringja í gjaldskylt símaspjall sem eigandi símans þarf að greiða fyrir. Svikarinn tekur síðan afraksturinn til sín.

Í símum sem keyra Android geturðu séð hvað forrit fer fram á að geta gert við símann þinn með því að lesa lýsingu þess á Google Play undir yfirskriftinni „heimildir“. Skoðaðu þessar upplýsingar áður en þú sækir forrit til að gera upp við þig hvort þú vilt forritið eða ekki. Ef þú ætlar til dæmis að sækja nýtt hringitónaforrit geturðu athugað hvort forritið má hringja símtöl fyrir þína hönd. Ef þér finnst það hljóma grunsamlega geturðu valið að setja forritið ekki upp.

Nýlegri Android tæki láta þig vita ef forrit reynir að senda SMS í símanúmer sem kann að hafa viðbótarkostnað í för með sér. Þú getur þá valið hvort þú vilt leyfa forritinu að senda skilaboðin eða loka fyrir forritið.