Verðu þig gegn auðkennisstuldi

Rétt eins og þjófar í raunheimum hafa tölvuþrjótar margar mismunandi leiðir til að stela persónulegum upplýsingum og peningum. Þú myndir ekki láta þjóf fá lykilinn að húsinu þínu og á sama hátt þarftu að gæta þín á svikum og auðkennisstuldi á netinu. Til að geta varið þig gegn slíku skaltu kynna þér helstu brögðin sem tölvuþrjótar beita. Hér eru nokkur hollráð.

Ekki svara ef þú sérð grunsamlegan tölvupóst, spjallskilaboð eða vefsíðu sem biður um persónuupplýsingar eða fjárhagslegar upplýsingar

Vertu ávallt á varðbergi gagnvart skilaboðum eða vefsvæðum þar sem beðið er um persónuupplýsingar og skilaboðum sem beina þér á ókunnuga vefsíðu þar sem beðið er um einhverjar eftirfarandi upplýsingar:

  • Notandanafn
  • Aðgangsorð
  • Kennitölu
  • Bankareikningsnúmer
  • PIN-númer
  • Kreditkortanúmer í fullri lengd
  • Skírnarnafn móður þinnar
  • Afmælisdaginn þinn

Ekki fylla út eyðublöð eða innskráningarreiti sem gætu tengst þessum skilaboðum. Ef einhver grunsamlegur biður þig um að fylla út eyðublað með persónuupplýsingum skaltu ekki freistast til að fylla það út. Jafnvel þótt þú smellir ekki á „Senda“ getur samt sem áður verið að upplýsingarnar þínar séu sendar til auðkennisþjófa, ef þú hefur skrifað eitthvað inn á eyðublaðið.

Ef þú færð skilaboð frá einhverjum sem þú þekkir sem virðast ekki koma frá viðkomandi aðila er mögulegt að brotist hafi verið inn á reikning hans og að hér sé á ferðinni glæpamaður sem vill fá peninga eða upplýsingar frá þér – gættu þín því á því hvernig þú bregst við. Dæmi um algeng brögð er að biðja þig um að senda peninga sem fyrst, segjast vera strandaglópur í öðru landi eða halda fram að símanum hafi verið stolið og því sé ekki hægt að hringja í viðkomandi. Í skilaboðunum gætirðu einnig verið beðin(n) um að smella á tengil til að sjá mynd, lesa grein eða horfa á myndskeið, sem í raun færir þig á síðu sem kann að stela upplýsingunum þínum. Hugsaðu áður en þú smellir!

Sláðu aldrei inn aðgangsorðið þitt ef þú ferð inn á vefsvæði í gegnum tengil í tölvupósti eða spjallskilaboðum sem þú treystir ekki

Jafnvel þótt þú teljir þetta vera síðu sem þú treystir, eins og síðu bankans þíns, er betra að fara beint á vefsvæðið í gegnum bókamerki eða með því að slá veffangið beint inn í vafrann.

Ekki senda aðgangsorð með tölvupósti og ekki deila þeim með öðrum

Aðgangsorð eru lykill þinn að reikningum og þjónustu á netinu og rétt eins og annars staðar þarftu að gæta þess vel hverjum þú gefur lyklana þína. Lögmætar síður og þjónustur biðja þig aldrei um að senda aðgangsorð með tölvupósti og því skaltu ekki svara ef þú færð beiðni um að senda aðgangsorð til vefsvæða.

Þar sem aðgangsorðin þín eru svo mikilvæg ættir þú að hugsa þig vandlega um áður en þú deilir þeim með öðrum – jafnvel vinum og fjölskyldumeðlimum. Þegar þú deilir aðgangsorðunum þínum eykur þú líkurnar á að einhver misnoti reikningana þína með því að sækja upplýsingar sem þú vilt ekki að þeir komist yfir eða nota reikningana þína á vafasaman hátt. Ef þú til dæmis gefur einhverjum aðgangsorð tölvupóstreikningsins þíns getur sá aðili lesið allan tölvupóst sem þú færð og sendir, reynt að nota tölvupóstreikninginn þinn til að fá aðgang að netþjónustum sem þú notar, eins og bönkum og netsamfélögum, eða notað reikninginn til að villa á sér heimildir. Að auki felur það í sér aukna hættu að deila aðgangsorði með öðrum, því þá þarftu að treysta á að viðkomandi ljóstri því ekki upp við neinn annan, viljandi eða óviljandi.

Vertu varkár þegar þú ert beðin(n) um að skrá þig inn á vefnum

Skoðaðu ummerki tengingar þinnar við vefsvæðið.

Kíktu fyrst á veffangastiku vafrans til að kanna hvort vefslóðin virðist ekta. Þú ættir líka að athuga hvort veffangið hefst á https:// – það gefur til kynna að tengingin við vefsvæðið sé dulkóðuð og þar af leiðandi með betri varnir gegn fikti og snuðri. Sumir vafrar birta einnig tákn fyrir hengilás í veffangastikunni við hliðina á https:// til að gefa skýrar til kynna að tengingin sé dulkóðuð og öruggari en ella.

Tilkynntu grunsamleg tölvupóstskeyti og svik

Flestar tölvupóstveitur gefa kost á þessu, þar á meðal Gmail. Ef þú tilkynnir um grunsamlegt skeyti í Gmail nýtist það við að útiloka viðkomandi notanda frá því að senda þér frekari tölvupóst og aðstoðar starfsfólk okkar sem tekur á misnotkun við að koma í veg fyrir svipaðar árásir.