Notaðu örugg aðgangsorð

Aðgangsorð eru fyrsta vörnin gegn netþrjótum. Það er lykilatriði að velja traust aðgangsorð sem eru mismunandi fyrir hvern mikilvægan reikning. Það er einnig góð venja að uppfæra aðgangsorðin reglulega. Farðu að þessum ráðum til að velja góð aðgangsorð og tryggja öryggi þeirra.

Notaðu sérstakt aðgangsorð fyrir hvern og einn af mikilvægu reikningunum þínum á borð við tölvupóst og heimabanka

Ef þú notar sama aðgangsorð fyrir alla reikningana þína á netinu er það áþekkt því að nota sama lykilinn til að læsa heimilinu þínu, bílnum og vinnustaðnum – ef glæpamaður kemst yfir einn þeirra hefur hann aðgang að öllu. Notaðu því ekki sama aðgangsorð fyrir fréttabréf á netinu og þú notar fyrir tölvupóst eða heimabanka. Það er kannski ekki jafn þægilegt, en það er margfalt öruggara að velja mörg aðgangsorð.

Geymdu aðgangsorðin þín á öruggum stað sem erfitt er að finna

Það er ekki endilega alslæm hugmynd að skrifa niður aðgangsorðin þín. En ef þú gerir það skaltu ekki skilja miða með aðgangsorðunum eftir fyrir allra augum á tölvunni eða skrifborðinu.

Notaðu löng aðgangsorð sem samanstanda af tölum, bókstöfum og táknum

Því lengra sem aðgangsorðið er, þeim mun erfiðara er að giska á það. Veldu því langt aðgangsorð til að vernda upplýsingarnar þínar betur. Ef þú bætir við tölum, táknum og blöndu há- og lágstafa er erfiðara fyrir snuðrara og aðra að giska á eða brjóta upp aðgangsorðið. Notaðu ekki „123456“ eða „lykilorð“ og forðastu að nota opinberar upplýsingar á borð við símanúmer í aðgangsorðunum þínum. Það er ekki frumlegt og það er ekki öruggt!

Prófaðu að nota orðaröð sem aðeins þú þekkir

Ein leið er að kokka upp orðaröð sem aðeins þú þekkir og sem tengist viðkomandi vefsvæði, til að auðveldara sé að muna hana. Fyrir tölvupóstinn gætirðu til dæmis valið „Eva og Einar, vinir mínir, senda mér fyndinn póst einu sinni á dag“ og kryddað það með tölustöfum og táknum. „E&Evmsmfp1sad“ er aðgangsorð með fjölbreyttum stöfum. Endurtaktu þetta á öðrum svæðum.

Stilltu endurheimtarkosti fyrir aðgangsorðið og uppfærðu þá

Ef þú gleymir aðgangsorðinu þínu eða læsist úti þarftu að geta komist aftur inn á reikninginn. Margar þjónustur senda tölvupóst til þín á endurheimtarnetfang ef þú þarft að endurstilla aðgangsorðið og því skaltu ganga úr skugga um að endurheimtarnetfangið sé rétt og að þú hafir aðgang að því.

Stundum geturðu einnig bætt símanúmeri við prófílinn þinn til að fá kóða fyrir endurstillingu með SMS-skilaboðum. Að bæta farsíma við reikninginn er einhver einfaldasta og áreiðanlegasta leiðin til að auka öryggi reikningsins.

Þjónustuveitur geta til dæmis notað símanúmerið til að verjast þeim sem reyna að brjótast inn á reikninginn og til að senda þér staðfestingarkóða svo þú komist aftur inn á reikninginn ef þú glatar aðganginum. Ef þú lætur Google í té endurheimtarsímanúmer leiðir það ekki til þess að það verði skráð á markaðssetningarlista eða símtölum frá símasölufólki fjölgi.

Farsíminn er öruggari auðkenningaraðferð en endurheimtarnetfangið eða öryggisspurning vegna þess að þú hefur símann undir höndum í raunheimum, ólíkt hinum tveimur.

Ef þú getur hins vegar ekki eða vilt ekki bæta símanúmeri við reikninginn geta mörg vefsvæði beðið þig um að velja spurningu til að staðfesta auðkenni þitt ef þú gleymir aðgangsorðinu. Ef þjónustan sem þú ert að nota leyfir þér að semja þína eigin spurningu skaltu reyna að hafa það spurningu sem þú ein(n) veist svarið við og er ekki eitthvað sem þú hefur birt opinberlega eða deilt á samfélagsmiðli.

Reyndu að hafa svarið sérstakt en eftirminnilegt – nýttu þér ráðlegginguna hér að ofan – þannig að þótt einhverjum takist að giska á svarið viti viðkomandi ekki réttu leiðina til að slá það inn. Það er mjög mikilvægt að þú munir þetta svar. Ef þú gleymir því er ekki víst að þú komist nokkurn tímann aftur inn á reikninginn.

Öryggisverkfæri

Kynntu þér fimm helstu öryggiseiginleika Google sem eru hannaðir til að stuðla að fjölskylduvernd á netinu.

Google reikningar

Gerðu Google reikninginn þinn enn öruggari

Þú eykur öryggi Google reikningsins þíns með því að bæta við tvíþættri staðfestingu. Ef þú ert með kveikt á tvíþættri staðfestingu sendir Google aðgangskóða í farsímann þinn þegar einhver reynir að skrá sig inn á reikninginn þinn úr áður óþekktri tölvu. Þetta þýðir að þótt einhver steli eða giski á aðgangsorðið þitt getur sá hinn sami ekki skráð sig inn á reikninginn þinn nema hafa símann þinn. Þannig geturðu varið þig með einhverju sem þú veist (aðgangsorðið) og einhverju sem þú ert með (síminn).

Frekari upplýsingar

Opnaðu stillingarnar með því að smella á nafnið þitt eða myndina í hægra horninu og smella svo á Reikningur.

Smelltu á Öryggi efst. Í aðgangsorðsglugganum skaltu smella á Uppsetning við hliðina á Tvíþætt staðfesting.

Þá færðu leiðbeiningar sem fylgja þér í gegnum uppsetningarferlið.

Síðan opnast stillingar tvíþættrar staðfestingar á ný. Yfirfarðu stillingarnar og bættu við varasímanúmerum.

Þá er það komið! Næst þegar þú skráir þig inn færðu send SMS-skilaboð með staðfestingarkóða.

Chrome

Vafrað á vefnum án þess að skilja eftir spor

Þú getur notað huliðsstillingu í Chrome vafranum í tölvunni, spjaldtölvunni eða símanum til að vafra án þess að skilja eftir þig nein spor. Ef huliðsstilling er virk skráir Chrome ekki þær síður sem þú skoðar og skrár sem þú sækir í vafra- eða niðurhalsferil.

Frekari upplýsingar

Smelltu á Chrome valmyndina á tækjastiku vafrans → Smelltu á „Nýr huliðsgluggi“.

Nýr gluggi birtist, með tákni huliðsstillingar í horninu. Til að hætta þarftu bara að loka glugganum.

Google reikningar

Google reikningurinn eins og þú vilt hafa hann

Á stillingasíðu reikningsins þíns sérðu þá þjónustu og upplýsingar sem tengjast Google reikningnum þínum og getur breytt öryggis- og persónuverndarstillingum.

Frekari upplýsingar

Opnaðu stillingarnar með því að smella á nafnið þitt eð a

Google reikningar

Fáðu tilkynningu ef nafnið þitt birtist á vefnum

„Ég á vefnum“ getur hjálpað þér að skilja og stjórna því sem fólk sér þegar það leitar að þér á Google. Eiginleikinn aðstoðar þig við að setja upp Google tilkynningar til að fylgjast með ef upplýsingar um þig birtast á netinu og stingur sjálfkrafa upp á ýmsum leitarskilyrðum sem þú kannt að vilja hafa auga með.

Frekari upplýsingar

Skráðu þig inn á Google reikninginn þinn og farðu á hlutann „Ég á vefnum“.

Smelltu á Stjórna veftilkynningum og smelltu svo á rauða hnappinn til að búa til tilkynningu.

Nafnið þitt birtist í textareitnum. Smelltu í textareitinn til að sjá fleiri uppástungur um veftilkynningar.

Smelltu á „Bæta við“ til að bæta við tilkynningu. Smelltu á blýantstáknið til að gera breytingar og ruslafötutáknið til að eyða.

Í fellivalmyndinni „Hversu oft“ skaltu velja tíðni tilkynninga.

Google reikningar

Hafðu umsjón með gögnunum á Google reikningnum þínum

Stjórnborð Google sýnir þér það sem er vistað á Google reikningnum þínum og veitir þér yfirlit yfir nýlega virkni á reikningnum. Á einum miðlægum stað geturðu auðveldlega skoðað gögnin þín og virkni og valið stillingar fyrir þjónustu á borð við Blogger, dagatal, skjöl, Gmail, Google+ og fleira.

Frekari upplýsingar

Farðu á stjórnborðið til að sjá yfirlit yfir gögnin sem tengjast Google reikningnum þínum og hafa umsjón með stillingunum þínum.

Hér geturðu séð og haft umsjón með gögnum sem vistuð eru á Google reikningnum þínum.

Sjá fleiri öryggisverkfæri